Hafnargellurnar

Thursday, September 21, 2006

Sælar kæru vinkonur!

Ég vil byrja á því að segja ykkur hvað ég sakna ykkar mikið og þykir óskaplega vænt um ykkur. Þið eruð allar svo duglegar í skólanum, vinnunni, hér og þar og mörg spennandi verkefni á döfinni hjá okkur öllum.

Ég er á mínu síðasta ári í Kennaraháskólanum og er í 6 fögum á þessari önn. Eftir jól verð ég síðan í 7 fögum og stefni að útskrift í júní. Ég verð nú að viðurkenna ég hef verið mjög sein af stað þetta árið og á gríðarlega erfitt með að setjast niður og lesa... já eða vinna verkefni. Ég held þó í vonina um að hugur minn fari að girnast þykkar og mis-skemmtilegar skólabækurnar ;o)

Ég hef verið í afleysingum í Grunnskólanum á Hólmavík og í Lyfsölunni og ég finn að það er togað í mig úr ýmsum áttum. Þar má nefna að ég er að lesa yfir meistaraprófsritgerð í Þjóðfræði sem er hvorki meira né minna en 270 bls., svo er ég að útbúa 90 félagsskírteini fyrir eldri borgara í Standasýslu, hanna lógó fyrir fyrirtæki og margt fleira skemmtilegt. Mér hefur verið boðin vinna á leikskólanum og kvennakórinn sækist eftir þátttöku og rödd minni - en þar segi ég stopp! (þið vitið hvað ég er mikið fyrir að syngja opinberlega)

Brynjar er orðinn 4 ára pjakkur og er alsæll með Hólmavíkina sína og leikskólann Lækjarbrekku. Hann á marga vini hér og leikur sér mikið úti. Það er nóg að gera að fara í afmæli hér og þar í bænum og til að mynda er honum boðið í tvö barnaafmæli á morgun, gaman að því!

Addi er byrjaður á öðru ári af fjórum á Tómstunda- og félagsmálabrautinni í Kennó og er glaður með það. Hann er að fara fjórðu helgina í röð í útivistarferð eða fjallgöngu og er búinn að fara í 20 km hjólferð í Heiðmörk, smala tvær helgar í röð og fer núna í 3 daga ferð á Hengil. Helgina eftir það smalar hann báða dagana og þá kemur að því að við verðum að slátra og vinna lambakjöt allar stundir. Það þarf að slátra, hreinsa, saga, úrbeina, hakka, búa til bjúgu, læri, gúllas, hakk, slátur, hangikjöt, kæfu, rúllupylsu, súpukjöt, kótelettur.... og svona mætti lengi telja. Svo er komið að ykkur að koma í grillað læri við fyrsta tækifæri!

Ég kem suður þann 9. október og verð út vikuna. Helgina 12.-16. október fer ég síðan með Kristínu systur minni og vinkonum hennar til Baltimore í USA til að skemmta okkur, versla föt og jólagjafir. Ég er búin að safna mér pening en ætla þó ekki að gefa mér alveg lausan tauminn... en ég vona að ferðin heppnist vel í alla staði.

Ég ætla allavega að fara fram á að hitta ykkur þegar ég kem og gefa mér góðan tíma í góðra vina hópi. Í lok október eða 28. okt - 1. nóv erum við svo búin að panta okkur íbúð í Reykjavík þar sem við erum að fara bæði í skólann á viku dögunum. Þá langar mig að við komum saman (eins og við gerðum fyrir 2-3 árum) munið: popppunktur, Emilíana Torrinu vs. Selma Björnsdóttir. Hvað segið þið um það?

Hvernig væri svo að stefna á vetrarsumarbústaðarferð í janúar - hverjir væru til í það?

Jæja nú nennir enginn að lesa meira og ég þarf að fara að huga að kvöldmat hér á bæ. Ég vona bara að helgin verði ykkur ánægjuleg og að þið hafið það sem allra allra best. Þó svo að ég heyri ekki nógu oft í ykkur elskurnar megið þið vita að þið eruð ávallt í hjarta mér.

Ykkar Hildur.

3 Comments:

At 5:34 AM, September 23, 2006, Anonymous Anonymous said...

Hæhæ;)
Það er fín hugmynd að hittast yfir Popppunkti og sjá hvað maður kemst langt í því spili;)
Vann annars ekki Addi með miklum yfirburðum ? ;)
Við verðum endilega að finna okkur tíma til að hittast og tralla eitthvað.
Bestu kveðjur SOS

 
At 9:54 AM, September 24, 2006, Anonymous Anonymous said...

Æ Hildur þú ert svo yndisleg :D gaman að heyra hvað þið eruð að bralla þarna vestur með fjalli, ég vona, eða ég veit að ykkur mun ganga vel í skólanum og öllu því sem þið takið ykkur fyrir höndum :)

Ég er meira en til í að hittast og spila eða eitthvað annað skemmtilegt og já vetrar sumarbústaðarferð hljómar vel :)

Hafið það sem allra best
Ragga

 
At 10:18 AM, September 25, 2006, Anonymous Anonymous said...

.. Gaman að heyra frá þér elskan!! gott að þið séuð að blómstra þarna í sveitinni. Þú mátt passa að ofkeyra þig ekki með verkefnum.

allur hittingur væri vel þeginn, hlakka ofboðslega til að gera eitthvað með ykkur öllum. Okkur sölva var að detta í hug leikhúsferð, Viltu finna milljón! Það er víst algjör snilld. en sonja og snorri pjökkuðust til að fara á það svo við kannski finnum bara eitthvað annað! Það væri nú ekki leiðinlegt að fara saman í leikhús og taka kannski léttan gítarhitting í kjölfarið heima hjá mér.. nú og svo kannski rölta niður í bæ ;o) við erum allavega til í einvern æðislegan hitting :) :) :)

sjáumst og heyrumst
Inga

 

Post a Comment

<< Home